Heildstæð hugsun – hvernig skólar nýta tækni

Edudemic bendir á Beaver Country Day School og hvernig hann nýtir tækni til að efla nám nemenda. Þegar síðan þeirra er skoðuð nánar virðist birtast þarna nokkuð heildstæð hugsun í námi og kennslu. Laura Nickerson náttúrufræðikennarinn þeirra segir frá því að náttúrufræðin sé kennd ekki sem safn af þekkingamolum heldur með því að nemendur fáist við viðfangsefni tengd raunveruleika þeirra.

Vinnubrögðin einkennast annars af því að nemendur eru hver með sína fartölvu og notkun þeirra er fléttuð inn í allt starf skólans með minni áherslu á að læra tölvutækni sem slíka.1

Kennarar og nemendur hafa opinn aðgang að samfélagsmiðlum og hafa átt samskipti við jafningja víða um heim.

Markmið skólans er að búa nemendur undir ókomna framtíð og rækta hæfni til aðlögunar, nýsköpunar og samvinnu.

Það sem gerir þessum skóla þetta mögulegt virðist vera það sem ég dreg fram í doktorsverkefni mínu:

  • sýn/stefnu á hvernig skólinn vill að upplýsingatækni styðji við nám og kennslu
  • góðan aðgang að tækjum og námsefni
  • samstarf kennara og faglegan stuðning

Ég held því fram að þegar þetta þrennt kemur saman eigi skólar möguleika á að skapa og dreifa þekkingu og reynslu í nýtingu upplýsingatækni sem hafi jákvæð áhrif á nám og kennslu.

Auglýsingar