Tíst á Menntakviku 2013

Menntakvika, árleg ráðstefna Menntavísindasviðs var haldin síðastliðin föstudag. Það tíðkast víða á ráðstefnum að halda úti samræðum á Twitter meðan ráðstefnur fara fram og skipuleggjendur Menntakvíku hvöttu þátttakendur til að tísta, eða skrifa færslur á Twitter sl. föstudag. Ég stóðst ekki mátið að kíkja á hvernig til hefði tekist. Niðurstöðurnar eru þessar: 27 þátttakendur skrifuðu samtals 298 færslur með # myllumerkinu (hashtag) #Menntakvika.. Verð að hafa fyrirvara á þessari talningu, handtaldi ekki heldur hlóð niður öllum færslunum og notaði svo Ctrl+F, og vona að allar færslur hafi skilað sér í leit að myllumerkinu.  Þátttakendur tístu mest meðan á pallborðinu stóð en þá voru tístin 121, en 177 það sem eftir lifði dags.

Tístafjöldi 2013

Tístafjöldi 2013

Að fá 298 færslur og 27 þátttakendur er ekki svo slæmt svona í fyrsta skiptið sem opinberlega er hvatt til þessa. Árið 2010 finnst ein færsla merkt #Menntakvika frá mér og 31 frá árinu 2011, ein frá Sólveigu Jakobsdóttur og rest frá Hildi Heimisdóttur @hildurheimis.

Tíst frá árunum 2010 og 2011

Tíst frá árunum 2010 og 2011

Núna í ár er áberandi að þeir sem taka þátt eru velflestir starfsmenn Menntavísindasviðs, skýringin kannski sú að við höfum netaðgang innanhúss. Skipuleggjendur ættu næst að láta opna fyrir ráðstefnuaðgang svo allir gætu nýtt sér þráðlaust net, en þurfi ekki að nota 3G.
Í færslunum er ekki hægt að sjá miklar samræður, fólk var meira að punkta niður það sem það heyrði áhugavert, samræðulistin kemur kannski næst. En til hvers þetta brölt gæti einhver spurt? Jú með þessu sköpum við sameiginlegar minningar, sköpum rými fyrir samræður og aukum sýnileika ráðstefnunnar og um leið þeirra fjölmörgu rannsókna sem kynntar eru á henni. Sem leið í að skapa sameiginlegar minningar má líka birta myndir og það var gert 21 sinnum á föstudaginn.

Mynd af Twitter frá Menntakviku.

Mynd af Twitter frá Menntakviku.

Skemmtileg upplifun var að eiga í samræðum við Ingva Hrannar sem nú stundar nám í Svíþjóð en fylgdist með á Twitter og að fá kveðjur frá fólki sem fylgdist með beinni útsendingu úr málstofum Rannum á vegum Sólveigar Jakobsdóttur.
Svo lýk ég þessum pistli á nokkrum tístum með von um að við í skólasamfélaginu tístum meira og þá með myllumerkinu #Menntaspjall , nema þegar Menntakvika stendur yfir 😉

Nokkur tíst.

Nokkur tíst.

Auglýsingar