Málþing um náttúrufræðimenntun

Málþing um náttúrufræðimenntun var haldið 17. 18. apríl 2015.  Slík málþing hafa verið haldin að minnsta kosti þrisvar áður.

Ég var með þrjár kynningar að þessu sinni, það var nú ekki meiningin. Ætlaði bara að kynna fyrstu niðurstöður í þeim tveim rannsóknum sem ég er að vinna en var svo véluð í að tala aðeins um starfsþróun náttúrufræðikennara.

Fyrst er stór rannsókn sem ég er að vinna með Gunnhildi Óskarsdóttur og Allyson Macdonald. Við ætluðum okkur alltof mikið og féllum í þá algengu gryfju að vaða áfram og tæpa á mörgu án þess að fjalla almennilega um neitt. Það er bara svona þegar margt er áhugavert. Hér eru allavega glærurnar.

Næsta erindi mitt er eiginlega úr uppáhaldsviðfangsefninu mínu en það er að fylgjast með hvernig upplýsingatækni er nýtt í náttúrufræðikennslu og hvaða áhrif hún hefur á hvað og hvernig er kennt.  Þetta var m.a. efni doktorsritgerðar minnar svo hér nýtum við þær 73 lýsingar sem ég safnaði þá af kennslustundum með upplýsngatækni og einnig 48 lýsingar sem við Allyson söfnuðum nú í vetur.  Við greinum örlitlar breytingar, einna helst innreið spurningaleikja eins og Kahoot og Socrative, en líka ennþá meira val nemenda á vinnubrögðum, tækjum og hvernig þau vinna. Það sem okkur vantar að skoða í framhaldi af þessu er hvort það er tækjakosturinn eða kennslufræðileg sýn kennarana sem stýrir hvernig tæknin er nýtt.

Nóg um það í bili, hér eru glærurnar.

Í lokin kom ég á eftir Gunnhildi sem var búin að fara yfir hvernig kennarnámið er uppbyggt og þær leiðir sem þeir sem vilja kenna náttúrufræði á öllum skólastigum geta farið. Hugsunin var svo að eftir að kennaranámi lýkur lýkur ekki námi okkar. til að verða góður kennari þarf alltaf að vera á tánum  og kynna sér það besta hverju sinni. Það er mörgum okkar ljóst að það er mikil þörf fyrir fjölbreytt tilboð á starfsþróun, en framboðið er eki nóg það eru allskyns þættir sem hafa áhrif á það hvort og hvenær kennarar sækja starfsþróun. Um það spunnust góðar umræður þó það hafi ekki verið það sem ég ræddi. Einnig sú ágenga spurning um hvort nót sé að vera með kjörsvið til að kenna náttúrugreinar í grunnskóla, hvort það þurfi BS próf í grein. En það stangast á við þann veruleika sem við búum við í íslensku skólakerfi að kennarar þurfa að vera fjölhæfir og geta sinnt mörgu vegna stærð skólanna. Skipulag þeirra leyfir ekki mikla sérhæfingu kennara. Jæja, hér er þá síðasta glærusettið.

Svona málþing eru alltaf áhugaverð og gott að fá að ræða vinnuna sína og áhugamál við kollegana, þá þarf samt að passa að ætla sér ekki um of, velja efni af kostgæfni svo tími gefist í umræður.

Í lokin má hér sjá virkni þátttakenda á samfélagsmiðlum.

Auglýsingar