Ertu að tala við vini þína?

Hvað gerir skólafólk kl. 11:00 á sunnudagsmorgni ? Jú í morgun sat ég við tölvuna og talaði við vini mína. Marga sem ég hef aldrei séð í persónu heldur kynnst á samfélagsmiðlum. Að frumkvæði Ingva H. Ómarssonar hefur  umræðumerkið #menntaspjall náð að festa rætur á Twitter og samfélag sem ræðir um menntamál á íslensku byrjað að myndast. Í morgun var svo stigið skrefinu lengra og efnt til skipulegs spjalls. Hvernig slíkt fer fram má lesa um hér á vef Menntamiðju en Tryggvi Thayer tekur þátt í skipulaginu.

Þetta fyrsta spjall var eiginlega spjall um spjall, hvernig við ættum að haga því í vetur.  Lagðar voru fyrir fimm spurningar um skipulag, möguleika, inntak og afurðir menntaspjalls.  Ingvi tók saman  aðalatriðinu úr spjallinu á Storify. En í stuttu máli þá er áætlað að spjalla annan hvern sunnudag og ekki skorti umræðuefni sem stungið var uppá, m.a. námskrá, endumenntun, upplýsingatækni, PISA, spjaldtölvur, útinám og staða náttúrufræðimenntunar. Líklega verða einhverskonar kosningar um hvað verður rætt í hvert skipti. Þátttakendur voru líka með fjölbreyttar hugmyndir að því hvernig þeir ætla að dreifa upplýsingum um #menntaspjall og hvetja aðra til þátttöku.

Ég efast ekki um að umræðurnar verða skemmtilegar og gagnlegar í vetur og hvet allt áhugafólk um menntun að koma á Twitter og taka þátt í næsta spjalli sem verður sunnudaginn 12. janúar 2014 klukkan 11.00. #menntaspjall .

Svona lítur maður út á sunnudagsmorgni að tala við netvini sína.

Svona lítur maður út á sunnudagsmorgni að tala við netvini sína með teppi og jólakaffibolla.

Auglýsingar