Makey-VEXA kynning á Menntakviku

Á Menntakviku 2018 kynntum við þrjú rannsóknir okkar á snillismiðjum í grunnskólaum og miklum kvennskörungum.

Frumkvöðlar og snillingar í skapandi starfi með stafræna tækni
Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ, Svava Pétursdóttir, lektor, MVS, HÍ, og Torfi Hjartarson, lektor, MVS, HÍ
Þetta rannsóknarverkefni snýst um hóp kvenna sem kallar sig VEXA og vinnur saman að þróun og eflingu snillismiðja. sköpunarsmiðja eða gervera (e. makerspaces) í íslenskum grunnskólum. Konurnar eru allar frumkvöðlar á sviði tækninotkunar í menntun barna og unglinga í mismunandi störfum innan
menntageirans. Markmið þeirra er að með hjálp stafrænnar tækni og skapandi greina verði nemendur framtakssamir hönnuðir fremur en þiggjendur á tæknisviðinu. Fylgst er með samvinnu þeirra og þróunarstarfi við að efla stafrænt læsi og nýsköpun meðal nemenda. Hér er sérstaklega litið til snillismiðju á vegum einnar úr VEXA-hópnum. Þar fást valdir nemendur úr nokkrum aldurshópum við
ýmsa tækni í svonefndri Snillismiðju, eru í hlutverki snillinga á því sviði, læra til verka, einkum á sviði stafrænnar tækni, og bjóða að því búnu öðrum nemendum til þátttöku í vinnustundum og menntabúðum. Í málstofunni verður sagt frá fyrstu niðurstöðum úr ýmsum athugunum á starfi í smiðjunni en þar er byggt á heimsóknum í smiðju og menntabúðir, viðtalsgögnum og upptökum á

 

Auglýsingar

Sögur af upplýsingatækni í leikskólum

Annað verkefnið sem ég kynnti með kollegum mínu var um afrakstur síðasta árs í DILE verkefninu.

DILE – Norrænt samstarfsnet um upplýsingatækni og skapandi starf í leikskólum
Torfi Hjartarson, lektor, MVS, HÍ, og Svava Pétursdóttir, lektor, MVS, HÍ

Glærurnar eru fullar af myndum og gefa bara óljósa mynd en, um þetta má lesa á bloggi verkefnisins https://dileprojekt.wordpress.com

Ágripið:

Upplýsingatækni býður upp á nýjar leiðir í námi og skapandi starfi á öllum skólastigum og á allra síðustu árum hafa sveitarfélög, mörg hver, lagt aukna áherslu á möguleika fólgna í notkun fartækni í leikskólastarfi, spjaldtölvur og snjallsíma, og raunar fleira tengt tækni í skapandi leik. Samstarfsnet byggt á NordPlus-verkefninu DILE (Digital Learning in Preschool) hefur leitast við að þróa og rannsaka notkun stafrænna verkfæra í leikskólum. Þátttakendur eru leikskólakennarar, stjórnendur leikskóla á sveitarstjórnarstiginu og rannsakendur frá öllum Norðurlöndunum. Til að kortleggja og efla notkun á spjaldtölvum og öðrum stafrænum verkfærum í leikskólum eru rýnd fyrirliggjandi skrif, leikskólar og háskólar í fimm löndum sóttir heim, rætt við starfsfólk og skipst á hugmyndum og reynslusögum á alþjóðlegum fundum, samfélagsmiðlum og þar til gerðum vef. Þróunarstarf og tilraunir hafa gefist vel; tæknin kemur að miklu gagni í sérkennslu og í almennu starfi gengur vel að ýta undir ýmiss konar ígrundun barnanna, samskipti, miðlun og sköpun, ekki síst með myndatökum og ýmsu sem þeim tengist. Tæknin kemur líka að góðum notum við skráningu á uppeldisstarfinu og í samstarfi við foreldra. Hér verður sagt frá ýmsu því sem verkefnið hefur skilað og greint frá hugmyndum um næstu skref.

Kennsluleiðbeiningar um stafræna borgaravitund

Nýbakaður meistari Edda Rut Þorvaldsdóttir kynnti með okkur meistaraverkefnið sitt á Menntakviku 2018. Í verkefninu sínu setti hún saman kennsluleiðbeiningar með verkefnum um stafræna borgarvitund. Verkefnin má finna á Skemmu en til stendur að birta þær á vef SAFT

  • Ég á lítinn skrítinn skugga – Kennsluleiðbeiningar með verkefnum um stafræna borgaravitund. Edda Rut Þorvaldsdóttir, meistaranemi, MVS, HÍ, Lilja M. Jónsdóttir, lektor, MVS, HÍ, og Svava Pétursdóttir, lektor, MVS, HÍ

    Þetta verkefni snýst um kennsluleiðbeiningar fyrir kennara með verkefnum sem hafa það að markmiði að hjálpa nemendum að vera ábyrgir á samfélagsmiðlum, gera þeim grein fyrir hættunum sem geta fylgt því að verja of löngum tíma inni á slíkum miðlum daglega og að setja sér mörk. Einnig á að hjálpa nemendum að nýta krafta samfélagsmiðla og styrkja þá með menntun og hæfni til að taka þátt í stafrænu samfélagi. Markmiðið með kennsluleiðbeiningunum er að gera kennurum kleift að vinna verkefni með nemendum sínum sem fá þá til að bera meiri ábyrgð á eigin gjörðum á samfélagsmiðlum og gera sér grein fyrir því að þar sé ekki allt sem sýnist, sem og að þeir átti sig á að sú glansmynd sem slíkir miðlar geta gefið af lífi fólks eigi sér stundum litla stoð í raunveruleikanum. Verkefninu fylgir fræðileg greinargerð um þýðingu verkefnisins, bakgrunn þess og hugmyndafræði. Greinargerðin fjallar um stafræna borgaravitund, rannsóknir á snjalltækjanotkun ungmenna, forvarnir, námskenningar og gerð og notkun kennsluleiðbeininga ásamt því hvernig þær tengjast aðalnámskrá grunnskóla, lífsleikni, hæfniviðmiðum, kennsluháttum og kennsluaðferðum. Kennsluleiðbeiningunum fylgja 13 verkefni sem voru unnin út frá níu þáttum stafrænnar borgaravitundar, en þeir eru: aðgengi, verslun, samskipti, læsi, siðferði, lög og reglur, réttindi og ábyrgð, heilsa og velferð og öryggi. Kennsluleiðbeiningarnar eiga að sýna hvernig hægt er að skipuleggja fjölbreytta kennslu um stafræna borgaravitund og um leið að þjálfa nemendur í að vera ábyrgir notendur í stafrænum heimi.

Það var mjög gaman að vinna með Eddu Rut, hún var með mjög skýrar hugmyndir um hvað hún vildi gera og gat nýtt reynslu sína úr kennslu og kennaranámi til að skrifa leiðbeinigar sem byggja á fjölbreyttum kennsluaðferðum og eru um leið notendavænar og skýrar.

Samfélagsmiðlar í tungumálakennslu

Í dag var ég að tala við dönskukennara um möguleika samfélagsmiðja í þeirra kennslu.  Félag dönskukennara er greinilega öflugt og flott félag. Heldur reglulega flotta fræðlusfundi. Ég spjallaði aðeins við tvo þeirra og í báðum samtölum kom fram að dönskukennarar segjast berjast fyrir tilveru fagsins. Í morgun voru líka kennaranemar á fyrsta ári að segja frá vettvangsnámi sínu. Þau áttu að draga fram það áhugaverðasta sem þau höfðu séð og heyrt í vikunni. Einn hópurinn dró fram tungumálanám, þau höfðu sér frönskukennlu ungra nemenda, 1-3 bekk minnir mig og úr því spannst aðeins umræða um tungumálanám og vildu þau sum meina að danska væri á útleið sem kennslugrein í grunnskóla. Einhverntíman hefði ég verið sammála þeim enda alltaf verið hrifnari af ensku. En raunin er að við íslendingar höfum svo mikil tengsl við aðra norðurlandabúa að það er hreinlega skynsamlegt að geta allavega bjargað sér á dönsku. Fyrir utan allan fjöldann sem fer í framhaldsnám á norðurslóðir.  Lifi danskan!

Ég talaði við dönskukennarana um samfélgasmiðla almennt en reyndi að leggja áherslu á þá miðla sem gætu nýst í tungumálakennslu. Svo sýndi ég þeim Talking Ginger, hlýtur að vera hægt að nota hann í tungumálanámi að heyra eigin framburð hjá fyndnum ketti eða einhverjum af félögum hans.

sem finna má bæði á Playstore fyrir Android og Appstore fyrir ipad og iphone

ISSE í Helsinki Júní 2013

Núna er ég nýkomin frá Helsinki, fyrsta ferðin mín þangað. Ég var á samkomu sem heitir International symposium on science education ISSE ég fór þangað með veggspjald um starfssamfélagið Náttúrutorg


Þessi ráðstefna er meira sniðin að kennurum en rannsakendum. Þemað var menntun til sjálfbærni og velt upp mörgum hliðum af fólki úr ýmsum áttum. Hún hefði eflaust nýst mér betur ef ég væri að kenna slíkt en það sem ég allavega lærði þarna var hvernig mætti skipuleggja svona námsskeið um ýmis aðkallandi þemu fyrir kennara, kannski ekki ósvipað og fræðslan sem við sóttum um 2006 í tengslum við verkefnið „Virkjum vísindin og hugvitið hjá unga fólkinu“. Þá einmitt fengu skólarnir á Suðurnesjum vetnisbíla eins og voru kynntir þarna í vinnustofu sem ég fór í.

Annað sem ég þarf að skoða betur eftir þessa ferð er verkefnið Scientix, Evrópusambandsverkefni um ef ég skil rétt að safna saman upplýsingum um námsefni, rannsóknir sem kostuð hafa verið af EU, samt skildist mér á verkefnastjóranum sem ég ræddi við að hvaða verkefni sem er gætu verið með en sá samt ekki alveg ávinningin af því.

Isse 2013 Helsinki