Upplýsingatækni í leikskólum

DILE – Digital Learning in Preschool

Verkefnið  snýst um að bera saman og þróa notkun á spjaldtölvum í leikskólum með áherslu á læsi, samskipti og atbeina barna í leik og námi í samtarfi við leikskóla.

Síða verkefnisins þar sem við höfum safnað sögum um hvernig upplýsingatækni er nýtt á leikskólum

Menntavísindasvið Hí og leikskólinn Nóaborg þáðum boð Háskólans í Halmstad um að vera með í þessu samnorræna verkefni.  Svava Pétursdóttir og Torfi Hjartarson eru fulltrúar MVS í verkefninu, markmið okkar með þátttöku er að rannsaka þetta svið og að auka hlut upplýsingatækni í menntun kennaraefna. Af hálfu  Reykjavíkurborgar tóku þátt þær Kristín Hildur verkefnastjóri, Anna Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri á Nóaborg og starfsfólk leikskólans Nóaborg.

Doktorsverkefni mitt var um notkun upplýsingatækni í náttúrufræðikennslu en sem lektor í kennslu yngri barna sameinast þarna tvö áhugasvið mín. Upplýsingatækni getur gefið börnum námstækifæri sem eru lítt könnuð og áhugaverð.

Í verkefninu höfum við fundað í öllum löndunum, heimsótt leikskóla og safnað gögnum með viðtölum og spurningalistum.

Það er mjög mismunandi í hvaða mæli leikskólar nýta upplýsingatækni. Skólarnir eru misvel tækjum búnir og sumir kennara hafa efasemdir um það hvaða erindi tækni eigi í leikskólaskólastarf. Aðrir nýta hana markvisst, námi barna og þroska til gagns. Spjaldtölvur hafa reynst vel og vinsældir þeirra aukast. Bæði börnum og starfsfólki gengur vel að ná tökum á þeim og auðvelt að grípa til þeirra þegar tækifæri gefast. Vinna og verkefni tengd ljósmyndum eru áberandi, bæði í skráningum og foreldrasamstarfi en líka sem vaki að samræðum og málörvun barnanna þar sem þau tjá sig um eigin reynslu heima og á leikskólanum.

Einnig sjást dæmi um að kennarar og börn leiti sér upplýsinga, vinni skapandi verkefni og noti leiki og kennsluforrit til þjálfunar í læsi og stærðfræði.

Það er mikilvægt að beina sjónum að atbeina og valdeflingu barna, að tækninn nýtist þeim við að tjá skoðanir sínar og reynslu og auki möguleika þeirra til að verða virkir þátttakendur í samfélagi sem einkennist af tækninotkun.

Umfjöllun úr Tímariti háskóla Íslands  2017 Upplýsingatækni í leikskólum

Ensk útgáfa  Information technology in preschools

 1. Um hvað snýst rannsóknin þín?
 2. Hver var kveikjan að rannsókninni?
 3. Hvers vegna valdirðu þetta viðfangsefni?
 4. Eru komnar niðurstöður eða eru væntingar um tilteknar niðurstöður?
 5. Hvaða gildi hefur þessi rannsókn fyrir vísindin almennt og samfélagið í heild?

 

 1. Um hvað snýst rannsóknin þín?

Rannsóknin er hluti af Nordplus verkefni með þátttöku okkar, Svía, Norðmanna, Dana og Finna, bæði fræðimanna í kennaramenntun og fagfólks við stjórnun leikskóla. Verkefnisstjórinn Håkan Cajander starfar við háskólann i Halmstad, Högskolan i Halmstad (e. Halmstad Univeristy) á vesturströnd Svíþjóðar og fyrsti samstarfsfundur fór þar fram í ágúst 2015. Af hálfu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands tóku þátt Svava Pétursdóttir og Torfi Hjartarson og af hálfu Reykjavíkurborgar Kristín Hildur verkefnastjóri og Anna Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri á Nóaborg. Fundað var  í öllum þátttökulöndum.

Ætlunin er að rannsaka, bera saman og þróa notkun á spjaldtölvum í leikskólum með áherslu á læsi, samskipti og atbeina barna í leik og námi. Litið verður til rannsókna um þessi efni, fræðilegrar umræðu og námskrár í löndunum fimm. Í Nóaborg voru gerðar tilraunir um notkun á spjaldtölvum og fylgst með þeim af okkur rannsakendum og stjórn Reykjavíkurborgar. Til að fá hugmyndir um hvernig upplýsingatækni er nýtt á leikskólum voru sendir spurningalistar til allra kennaranema og tíu leikskóla þar sem spurt var um hvaða tæki væru til á skólunum og hvernig tæknin væri nýtt.

 

 1. Hver var kveikjan að rannsókninni?

Háskólinn í Halmstad bauð Menntavísindasviði og Nóaborg að vera með í verkefninu.  Stjórnendur leikskólabrautar tóku því fagnandi þar sem ætlunin hefur verið að auka hlut upplýsingatækni í menntun kennaraefna og við Torfi vorum beðin að taka þátt, en Torfi hefur kennt leikskólakennarnemum um árabil á námskeiðum um leik og tækni.

 

 1. Hvers vegna valdirðu þetta viðfangsefni?

Verkefnið eiginlega valdi mig en hentaði mér afskaplega vel á þessum tímapunkti.  Doktorsverkefni mitt var um notkun upplýsingatækni í náttúrufræðikennslu en nú er ég lektor í kennslu yngri barna svo þarna var tækifæri til að kynnast hvernig upplýsingatækninotkun er að þróast á leikskólum og svo í framhaldi að nýta þá þekking á námskeiðum kennaranema bæði á leikskólabraut og grunnskólakennarabraut.

 

 1. Eru komnar niðurstöður eða eru væntingar um tilteknar niðurstöður?

Það sem við höfum lært í þessu verkefni er að það er mjög mismunandi í hvaða mæli leikskólar nýta upplýsingatækni. Skólarnir eru misvel tækjum búnir og sumir kennara hafa efasemdir um það hvaða erindi tækni eigi í skólastarf með ungum börnum.  Aftur á móti eru sumir leikskólar markvisst að þróa leiðir til að nýta upplýsingatækni börnunum og námi þeirra til gagns. Þau sem það gera segja sem rétt er að upplýsingatækni sé þegar stór hluti af lífi barna og leikskólar eigi ekki að vera þar nein undantekning. Þar spili mörg sjónarmið inní, leikskólarnir eigi að grípa þau námstækifæri sem tækin gefi og starfa á nútímanlegan hátt. Á sama tíma hafa þeir sterka sýn á að tæknin sé bara ein leið eða verkfæri í viðbót sem nota beri í hófi. Sem dæmi á leikskólanum Nóaborg sem notar tækni mjög mikið þá er skjátími hvers barns aldrei meira en um tvær klukkustundir á viku. Spjaldtölvur hafa reynst sérlega vel og vinsældir þeirra virðast aukast. Bæði börnum og starfsfólki gengur vel að ná tökum á þeim og þau tæki eru handhæg og auðvelt að grípa til þeirra þegar tækifæri gefast.  Sérlega hefur vinna og verkefni tengd ljósmyndum verið áberandi, þá bæði í skráningum og foreldrasamstarfi en líka sem vaki að samræðum og málörvun barnanna þar sem þau tjá sig um eigin reynslu bæði ferðir og starfið á deildinni.

Einnig sjást dæmi um að kennara og börn leiti sér upplýsinga, vinni skapandi verkefni og noti leiki og kennsluforrit til þjálfunar.

 

 1. Hvaða gildi hefur þessi rannsókn fyrir vísindin almennt og samfélagið í heild?

Það er mikilvægt að bæði að fylgjast með hvernig ný tækni er nýtt í skólastarfi en um leið að vinna að því í samstarfi við kennarmenntuna og leikskólakennara að þróa kennsluaðferðir sem leggja áherslu á nám og þroska barnanna. Í þessu verkefni hafa rannsakendur sérstakan áhuga á að beina sjónum að atbeina og valdeflingu barnanna, það er að tækninn nýtist þeim í að tjá skoðanir sínar og reynslu og auka möguleika þeirra til að verða virkir þátttakendur í samfélagi sem einkennist af tækninotkun.

 

Verkefnið var kynnt á Menntakviku 2016

 http://skrif.hi.is/rannum/menntakvika/menntakvika-2016/

Kl. 13:15-14:45 í H-201 Stafræn verkefni með börnum á leikskóla

Málstofustjóri: Svava Pétursdóttir

Upptaka (hvert erindi bókmerkt)

 • DILE upplýsingatækni í leikskólum: Svava Pétursdóttir og Torfi Hjartarson Glærur
 • DILE þróunarverkefni í Nóaborg: Anna Margrét Ólafsdóttir Glærur
 • Skýrsla frá Reykjavík um UT á leikskólum: Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir og Kristín Hildur Ólafsdóttir Glærur
 • Svamlað í djúpu lauginni – iPAD í leikskólanum Álfaheiði: Fjóla Þorvaldsdóttir Glærur

 

Ágrip frá Menntakviku

Málstofa á Menntakviku- Stafræn verkfæri með börnum í leikskóla

Rannsóknarstofa: RANNUM (Rannsóknastofa í upplýsingatækni og miðlun)

DILE- upplýsingatækni í leikskólum.

Svava Pétursdóttir lektor Menntavísindasvið HÍ
Torfi Hjartarson lektor Menntavísindasvið HÍ 

Upplýsingatækni býður uppá nýjar leiðir og tækifæri í námi og skapandi starfi á öllum skólastigum. Leikskólar eru margir að taka fyrstu skrefin við að nýta snjalltæki á borð við spjaldtölvur og síma. Verkefnið DILE (Digital learning in Preschool) snýst um að þróa og rannsaka notkun stafrænna verkfæra í leikskólum. Þátttakendur eru úr skólastarfi og kennaramenntun,  leikskólum og háskólum, frá öllum Norðurlöndunum.  Til að hefja verkefnið og kortleggja notkun spjaldtölva og fleiri verkfæra í leikskólum eru rýnd fyrirliggjandi skrif, valdir skólar sóttir heim, rætt við starfsfólk og sendur út einfaldur spurningalisti sem á að veita nokkra yfirsýn yfir tækninotkun í starfi með börnum í leikskólum. Spurningum var beint  til nema í leiksskólakennaranámi og 20 deildarstjóra á tíu leikskólum í hverju landi. Notkun er víðast takmörkuð en þó misjöfn eftir skólum. Þróunarstarf við suma skóla og fyrstu tilraunir í verkefninu hafa gefist vel, tæknin kemur að miklu gagni í sérkennslu og í almennu starfi gengur vel að ýta undir ýmiss konar ígrundun barnanna, samskipti og sköpun, ekki síst með myndatökum og ýmsu sem þeim tengist. Tæknin kemur líka að góðum notum við skráningu á uppeldisstarfinu og í samstarfi við foreldra.

DILE- Þróunarverkefni Nóaborg   

Anna Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri Nóaborg,  

Á leikskólanum Nóaborg í Reykjavík hefur verið unnið að þróunarverkefninu DILE um að nýta upplýsingatækni og þá einkum spjaldtölvur í starfi með börnunum. Á Nóaborg hefur verið unnið með upplýsingatækni mörg undanfarin ár og áhugavert þótti að kanna nýja möguleika og tækifæri tengd spjaldtölvum. Við skipulag vetrarins fór starfsmannahópurinn í gegnum hugmyndavinnu og markmiðssetningu þar sem litið var á hvernig tæknin hefði verið nýtt hingað til, hverju ætti að halda áfram og hverju mætti bæta við. Tækin voru mikið notuð í sérkennslu, einnig í fjölbreyttri vinnu með ljósmyndir, unnið var með leiki þar sem unnið er með læsi og stærðfræði auk smáforrita sem bjóða uppá skapandi vinnubrögð. Helstu hindranir í þessu starfi eru af tæknilegum toga og snerta til að mynda netsamband en yfir veturinn var smám saman bætt við búnaðinn og samband bætt. Þá hefur skjávarpi komið að góðum og áhugaverðum notum.  Í lok vetrar var starfið metið með hjálp spurningalista. Helstu niðurstöður voru þær að starfsfólkið taldi sig hafa lært af verkefninu og fjölbreytni í notkun upplýsingatækninnar hefur aukist. Áætlað er að halda starfinu áfram og þróa frekar notkun á stafrænum verkfærum með börnunum.

Skýrsla frá RVK um UT á leikskólum

Kristín Hildur Ólafsdóttir – Verkefnastjóri skrifstofu skóla- og frístundasviðs
Þorbjörg Þorsteinsdóttir  – Verkefnastjóri skrifstofu skóla- og frístundasviðs

Í erindinu verður fjallað um verkefni starfshóps á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur er snúast um notkun upplýsingatækni í leikskólastarfi. Markmið með starfi hópsins er að greina stöðu og koma með tillögur að markmiðum og leiðum sem geta stutt þróun, uppbyggingu og notkun upplýsingatækni í leikskólum.

Gerð verður grein fyrir niðurstöður úr könnunum sem sendar voru til leikskólastjóra og deildarstjóra í leikskólum Reykjavíkur árin 2015 og 2016. Annars vegar er um að ræða könnun á tækjaeign, nettengingum, miðlægri þjónustu, stuðningi innan leikskólans við notkun upplýsingatækni og notkun samfélagsmiðla. Hins vegar er um að ræða könnun á notkun upplýsingatækni í skapandi starfi í leikskólum Reykjavíkur


Fjallað verður um tillögur hópsins sem tengjast i) miðlun góðra fyrirmynda og ábyrgri notkun upplýsingatækni í leikskólum, ii) búnaði þráðlausu neti og þjónustu og iii) símenntun og starfsþróun starfsmanna. Eins verður horft til framtíðar og næstu skrefa sem taka má til að styðja við ábyrga og markvissa notkun upplýsingatækni í leikskólum.

 

 

Auglýsingar